148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

framkvæmd og eftirfylgni barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

329. mál
[17:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að hagsmuna barna sé gætt í miklum mun ríkari mæli við lagasetningu og alla lagaframkvæmd hér og málum barna sé miklu meiri gaumur gefinn undanfarin ár. Það er auðvitað ekki síst því að þakka að við höfum innleitt þennan barnasáttmála, en auk þess hefur viðhorf til mannréttinda almennt auðvitað tekið stórstígum framförum og menn orðnir meðvitaðir um að gæta þarf að mannréttindum barna sérstaklega. Börn geta oft verið í viðkvæmri stöðu.

Hér í umræðunni voru sýslumenn nefndir sem hafa auðvitað mjög viðurhlutamiklu hlutverki að gegna í málefnum barna, koma að og gegna lykilhlutverki þegar kemur að skipan forsjármála og umgengnismálum foreldra við börn sín, sem eru fyrst og fremst mannréttindi barna en auðvitað foreldra líka. Í þeim efnum verð ég að segja að stórstígar framfarir hafa orðið hjá sýslumönnum, m.a. með skyldubundinni sáttameðferð sem hefur verið komið á núna á síðustu árum. Við erum að sjá jákvæðan árangur af því. Sýslumenn eru að meta verklag og hafa tekið upp nýtt og breytt verklag. Allir þar eru af vilja gerðir til að inna þá vinnu af hendi eins og hægt er að gera best.

Hvað þriðju valfrjálsar bókanir við barnasáttmálann varðar eru þær valfrjálsar eins og menn þekkja en geta átt misvel við. Við munum skoða það og verið er að skoða það í ráðuneytinu hvort það eigi við í þessu tilviki og mun ekki síst koma til umræðu hjá áðurnefndum stýrihóp (Forseti hringir.) Stjórnarráðsins um mannréttindi.