148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hugsa að við, alla vega flest hér inni, getum verið sammála um mikilvægi þess að kanna stöðu nemenda, annars vegar fyrir nemendurna sjálfa til að vita hvar þeir standa námslega, en ekki síður fyrir okkur sem samfélag að fá einhvern mælikvarða á það hvernig skólakerfið okkar virkar.

Að mínu mati hafa þessi mál ekki verið í nógu góðum farvegi að undanförnu. Óvissa um hvernig verður farið með niðurstöður úr prófum sem nemendur taka er auðvitað óþolandi fyrir nemendur, hreinlega upp á það hvernig þeir eiga að undirbúa sig og hverju þeir geta svo gert ráð fyrir, hvernig niðurstaðan verður notuð.

Þess vegna fagna ég því hvernig hæstv. ráðherra hefur tekið á málunum núna í kjölfar þess klúðurs sem kom upp við (Forseti hringir.) samræmdu prófin. Ég fagna því víðtæka samráði sem er að eiga sér stað hér því að ég held að það sé alveg rosalega mikilvægt. Fyrirsjáanleikinn fyrir ungt fólk á Íslandi (Forseti hringir.) sem er að fara í próf verður að vera til staðar.