148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja þingheimi frá því að um helgina var Sjálfstæðisflokkurinn með landsfund sinn. Það er ánægjulegt fyrir okkur sem höfum sótt landsfundi áratugum saman að hitta gamla félaga og ræða málin og skerpa á vináttunni. Það er auðvitað hluti af pólitíkinni að eiga vini og eiga góðar stundir saman, hafa líka gaman í pólitíkinni. Það er mjög mikilvægt að við getum haft gaman af starfi okkar við að undirbúa það sem er til heilla fyrir land og lýð, það er auðvitað markmið okkar allra með þessari vinnu okkar hér.

Ég var sérstaklega ánægður með þær samþykktir sem komu frá fundinum. Þetta er gríðarlega öflug samkoma. Þegar atvinnuveganefnd var að vinna að sínum málum í nefnd á föstudag og laugardag voru yfir 180 manns á fundi nefndarinnar að samþykkja ályktanir hennar og fara í gegnum þær. Þar var tekist á um málin, en eins og á sönnum og góðum þingstað ganga menn sáttir út og við stöndum vörð um stefnuna.

Ég var sérstaklega ánægður með það að í lok þingsins var samþykkt að draga úr skerðingum á örorku- og ellilífeyri. Það er eitt af okkar stóru málum sem við viljum vinna að, að tryggja öllum tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði en króna á móti krónu skerðing viðgengst enn hjá þeim sem eru á örorkulífeyri. Þá skerðingu ber að afnema nú þegar, það var samþykkt. Ég fagna því og treysti því að við í þessu húsi stöndum saman um þá breytingu.