148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisfyrirspurn um mál sem margir hafa skoðun á. Í samráðsferlinu var þessari leið hreinlega hafnað af mjög mörgum sveitarfélögum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öðrum, m.a. af rökum sem ég er sammála. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur svo margt breyst á 20 til 30 árum. Hús sem eru byggð í dag fyrir heilsársbúsetu með vegtengingum og möguleikum á að sinna öllu því sem sinna þarf þegar menn skrá lögheimili — til að mynda heimaþjónusta, heimahjúkrun, sjúkrabílar, slökkvilið, skólabílar og sorp — eru allt annað en hús í byggðum sem voru byggðar fyrir 20 til 30 árum, ég tala nú ekki um fyrir 40 til 50 árum.

Síðan er réttur manns sem kaupir sér frístundahús í frístundabyggð. Ef nágranni hans má allt í einu breyta því í lögheimili er það svolítið sama umræðan og um Airbnb í þéttbýlinu. Ég skil mjög vel þá afstöðu að ef maður byggir sumarhús í sumarhúsabyggð vilji hann hafa það sem sumarhúsabyggð — (Forseti hringir.) sé til annað plan um aðra starfsemi þá geta menn haft lögheimili þar — ég skil það mjög vel.