148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einmitt að þetta sé bara hluti af stærra, ég vil ekki segja vandamáli, en það er eitthvað á þeim slóðum, þegar kemur að því hvernig Íslendingar umgangast persónuvernd og hvernig við höfum alist upp í því hvernig við meðhöndlum persónulegar upplýsingar fólks. Þetta birtist í því hvernig við notum kennitöluna okkar og ýmsu öðru og er eitthvað sem við þurfum að fara að taka til endurskoðunar, þótt ekki væri nema bara vegna þess að við erum að fara að innleiða miklu metnaðarfyllra regluverk varðandi persónuvernd.

Í því ljósi ættum við að skoða öll mál, eins og það frumvarp sem hér liggur frammi. Hvort nauðsynlegt sé að við séum með miðlæga aðgengilega skrá yfir lögheimili allra Íslendinga til þess að þjóna einhverju mikilvægu hlutverki eða hvort við getum leyst þetta mál á ópersónugreinanlegri hátt, ég veit það ekki, eins og ég sagði í ræðu minni. Þó að mér finnist gaman að benda á að hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson búi að Bakkaflöt og Brynjar Níelsson í Birkihlíð og Bergþór Ólason á Bjarkargrund og þar með sé komið efni í heilan ljóðabálk þá staldra ég enn við það að kannski þurfum við ekki að vita hvar allir þessir mætu menn búa.