148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:54]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þess má geta að ég heiti Albertína og bý á Akureyri, svona til að halda brandaranum aðeins áfram. En mig langaði að grípa þetta sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á með að skrá sig í rauninni til sveitarfélags frekar en sérstaks lögheimilis eða á einhverja götu eða heimili. Ég velti fyrir mér hvort þar gæti mögulega legið lausnin á lögheimilisskráningu barna, að ef við værum ekki endilega skráð á eitthvert ákveðið heimili eða ákveðna götu værum við skráð til sveitarfélags og það væri þá sveitarfélagið sem við greiddum útsvar til o.s.frv. Þar með, ef foreldrarnir eru báðir skráðir með lögheimili í sama sveitarfélagi, værum við mögulega komin með einhverja einföldun á lögheimilisskráningu barna. Ef foreldrar eru með sameiginlegt forræði væru þau þar með sömuleiðis sjálfkrafa komin með sameiginlegt lögheimili ef svo mætti segja, þ.e. með lögheimili í sama sveitarfélagi? Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ef til vill möguleg lausn eða einföldun á þessu endalausa vandamáli sem tvöföld lögheimilisskráning barna er. Auðvitað leysir það ekki málið ef foreldrarnir eru búsett hvort í sínu sveitarfélaginu en það myndi þá mögulega einfalda málið því að í langflestum tilvikum held ég að megi segja að þá eiga foreldrar lögheimili í sama sveitarfélaginu, svona yfirleitt. Hvað segir hv. þingmaður um það?