148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði fyrir fyrirspurnina og góð orð í garð þessa frumvarps. Ég held að það sé alveg rétt að þar sé kveðið við nýjan tón í sambandi við langtímastefnumörkun.

Varðandi fjarskiptasjóðinn hefur það verið verkefni hans að koma á grunnþjónustu. Stærsta verkefnið á síðustu misserum er landsátakið Ísland ljóstengt, sem lýkur vonandi 2020, þegar við höfum náð þeim árangri að tengja 99,9% heimila og fyrirtækja í landinu við nothæft, samkeppnishæft net, sem er á við það besta sem gerist.

Það væri svolítið úr takti ef hugmyndafræðin á bak við frumvarpið er að við séum með sams konar verkáætlanir og nálganir við okkar ólíku verksvið, þ.e. samgönguráð. Reynslan af slíku samgönguráði er góð, þess vegna erum við að yfirfæra hana yfir á fjarskiptaráð og þá byggðamálaráð, sem við höfum líka unnið með öðrum hætti. Það á hins vegar ekki að draga úr samráði við ólíka aðila, almenning, stofnanir, landshlutasamtök, stýrinet Stjórnarráðsins eða neitt slíkt í neinum af þessum tilvikum þó að við séum að samræma verklagið.

Ég held að sú leið sem hér er farin sé annars vegar til þess að tryggja samræmingu í verklaginu og hins vegar til að tryggja að sú pólitíska stefnumótun sem ráðherra á hverjum tíma vinnur eftir komist í framkvæmd á verktíma hans. Þess vegna eru ráðuneytin bundin í skipunartíma við embættistíma ráðherrans.