148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hjó eftir því í ræðu minni að ég talaði um að mér þætti ekki regluverkið alltaf merkilegt. En ég skal bara víkja aðeins örfáum orðum að því.

Ég segi: Við erum að greiða mjög há gjöld fyrir fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Þau gjöld eru há vegna þess að við höfum haft ofboðslega offjárfestingu í fjarskiptum á Íslandi. Það birtist m.a. í því að við leggjum margfalt ljósleiðarakerfi á þéttbýlustu stöðum landsins. Þetta finnst mér galli. Ég er ekki tilbúinn og hef ekki stöðu til þess eða þekkingu, hv. þingmaður, að kveða á um að innleiðing reikiþáttarins hafi verið mistök á Íslandi. Við innleiddum hann með þeim hætti eins og reglurnar segja til um að við áttum að innleiða, við urðum að fara eftir þeim. Þess vegna er þetta vandamál. Þannig eru reglurnar ekkert ofboðslega góðar.

Um þann þátt sem hv. þingmaður spyr varðandi höfundaréttinn ætla ég einungis að segja að ég hef ekki þekkingu eða ekki kynnt mér það mál svo ég geti talað um það efnislega svo eitthvert vit sé í.