148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nú einmitt mjög mikilvægt að við séum ekki að flækja umræðuna mjög mikið. Þess vegna baðst ég svona undan umræðunni um höfundaréttarmálin hérna því að höfundaréttarmálin lúta allt öðrum lögmálum í mínum huga. Þar er m.a. um eignavarinn höfundarétt og eignavarin réttindi fólks að ræða.

Mér finnst mjög merkilegt að niðurstaða þessa samtals okkar sé að verða sú að regluverkið sem hér var dásamað áðan sé nú bara alls ekki svo gott. Það er ákveðin niðurstaða í umræðunni, virðulegi forseti.

Varðandi þessa reikiþætti sem þingmaðurinn sagði þá er þetta nákvæmlega þannig að erlendir ferðamenn detta inn í þetta með þeim hætti sem við höfum rætt hérna. Það rekur nú kannski umræðuna að öðru sem við skulum taka efnislega mjög alvarlega en það er hvernig við skilgreinum markað. Ég held að við höfum í of langan tíma búið við skilgreiningu Samkeppniseftirlits á markaði sem er orðin úrelt, orðin barn síns tíma. Þetta á ekki bara við um fjarskiptamarkað heldur ýmsa aðra markaði því að flæðið er einfaldlega orðið það mikið að við getum í sumum tilfellum ekki horft á eitthvað eitt sem sérstakan heimamarkað. Það er miklu stærri umræða en þessi. Ég vil ekki flækja þessa umræðu með því að fara miklu lengra inn í það hér.

En veruleikinn er sá að hér er bæði offjárfesting og vanfjárfesting og hún helgast af því að regluverkið er ekki alveg nógu gott og við erum að reyna að leysa úr því með sértækum lausnum.