148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir og tek undir með hv. þingmanni að það er ótækt að geta ekki nýtt sér þá fjárfestingu sem nú þegar er komin og þá er bara spurning hvort allir Íslendingar sem eru á Tenerife ættu að reyna að verða sér úti um símanúmer þar og geta þannig nýtt sér þessa þjónustu með að hafa þá erlent símkort með sér þegar þeir eru að ferðast. Það er líka svolítið skrýtið að þetta megi með erlendu kortunum. Þar var hægt að gera skyldu um reiki á milli landa á sama verðinu. Við hljótum einhvern veginn að geta fundið leið þarna.

Þá er þetta líka orðin spurning um að til þess að tryggja betra farsímanet með betri dreifingu, öryggisins vegna, hvort við eigum að fara í opinberan stuðning til að fylla upp í gloppurnar eða breyta lögunum þannig að við nýtum þá fjárfestingu sem markaðurinn hefur gert núna til þess að fylla upp í gloppurnar ef ég skil þetta rétt, að það sé svolítið verkefnið sem er fyrir framan okkur.

Ég myndi telja það vænlegast, að reyna að nýta fjárfestinguna, reyna að opna hana, og sjá svo hvort einhverjar gloppur eru þar eftir. Eins og þingmaðurinn kom inn á eru til sjálfkeyrandi bílar og svo er líka ýmis tækni sem við sjáum að t.d. bændur á Norðurlöndum eru farnir að nýta sér, 5G-tæknina, til að hafa landupplýsingar um sitt land, hvernig eigi að nýta ýmsan áburð og skordýraeitur og annað slíkt. Það er mikilvægt að þessi fjarskipti byggist hratt upp sem víðast hér um land til að þróunin, jafnvel í umhverfismálum, haldi áfram.