148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:29]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega þar sem hv. þingmaður endaði sína ræðu; krafan um betri fjarskipti, útbreiðslukrafan um góð fjarskipti til þess að geta tileinkað sér alla þá ótrúlegu möguleika sem þau hafa í för með sér. Ég held t.d. að útbreiðsla fjarskipta sé stórt umhverfismál út frá nákvæmlega þeim hætti sem hv. þingmaður nefndi, hvernig við nýtum landið okkar með áburðargjöf, með uppskerumati og uppskerumælingum og slíkum þáttum í gegnum búskapinn.

Ég vil aðeins undirstrika það að við megum auðvitað ekki ganga þannig fram að við sköðum samkeppnisþáttinn í allri þessari uppbyggingu því að hann er drifkrafturinn. Við erum á þessum stað með íslensk fjarskipti vegna þess að við höfum náð að verja samkeppniskraftinn. Í öðru lagi held ég að leiðin út í þetta felist t.d. í því að ræða það svolítið við Samkeppniseftirlitið, hversu langt okkur er mögulegt eða hversu æskilegt er að ganga langt í þeim efnum að flétta þetta meira og betur saman, eins og hv. þingmaður rakti hérna, og þá standa eftir, eins og hv. þingmaður nefndi, kannski einhver svæði sem við ættum þá að beita uppbyggingarpóstinum af hendi hins opinbera.

En það fer síðan að verða meira umhugsunarefni, virðulegi forseti, þegar við erum að byggja vegi og viðhalda þeim, að þessi þáttur í vegakerfinu sé þá í meira mæli skilgreindur sem öryggisþáttur, sem hluti af því að byggja veg og reka veg, að við gætum að þessum þáttum, fjarskipta- og farsímakerfunum.