148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega rosalega mikilvægt mál sem við erum að tala um hérna. Það lætur kannski ekki mikið yfir sér en við nánari skoðun, eins og hefur komið fram í ræðum þingmanna, er rosalega mikilvægt að þetta sé vel gert.

Ástæðan fyrir því er þessar gríðarlegu tækniframfarir sem við höfum upplifað á undanförnum árum og áratugum. Svo við förum að tala um hversu gamalt fólk er hérna var ég t.d. með fjögurra stafa símanúmer einu sinni. Ég man alveg hvernig þetta var með svæðaskiptingarnar o.s.frv. Það var kannski stutt á milli tveggja bæja en þeir voru hvor á sínu svæðinu og þá kostaði aðeins meira að hringja á milli. Maður þurfti að fara niður á símstöð og panta símtal til útlanda og svoleiðis, það var mjög gaman. Það er ekki svo langt síðan ástandið var þannig og þangað til 2007 og það sem hefur gerst síðan þá, en fyrsti snjallsíminn kom almennilega út 29. júní 2007, á giftingardaginn minn minnir mig að það hafi verið.

Þetta er rosalega stutt síðan. Ástæðan fyrir því að þetta er mikilvægt mál og það er mikilvægt að þetta sé vel gert er einfaldlega þessar hröðu tækniframfarir. Við verðum að horfa til framtíðarinnar og vita að það eru tækniframfarir á næsta leiti sem koma til með að þurfa ákveðna innviðauppbyggingu til þess að hægt verði að nýta sér þær. Þá er ekki skynsamlegt að leggja í mikinn kostnað í offjármögnun núverandi tækni og offramboð á henni. Við verðum samt að ná góðri útbreiðslu í núverandi tækni til þess að ná að fylgja öllum öðrum, fylgja tækniþróuninni. Við þurfum að vara okkur á margfaldri uppbyggingu. Hún borgar sig einfaldlega ekki þjóðhagkvæmnislega séð og umhverfislega séð til langs tíma. Við verðum að byggja upp á þann hátt að það sé auðvelt að skala upp eða nýta fráfarandi tækni í framtíðinni. Vera aðeins forsjál í uppbyggingu, það er rosalega mikilvægt.

Nú voru smáumræður áðan um reglur um reiki og hversu slæmar þær voru fyrir okkur. En þær eru samt betri fyrir ferðamenn. Þeir lenda ekki í þessu vandamáli að detta út af og til eins og var lýst hérna áðan. Þetta lýsir ákveðnu ástandi sem hefur ekki verið almennt eða ekki verið á internetinu. Þar er mjög eðlilegt að maður veit í rauninni ekkert þegar maður sendir eitthvað frá sér hvaða leið það fer. Það fer bara inn á einhverja leið í gegnum netið og endar síðan á tölvuviðtakanda. Þegar maður sendir einhvern annan pakka næst eða aðra mynd fer hún jafnvel aðra leið.

Það sem er hægt að gera líka tæknilega séð er að nýta sér það að leiðir eru mishraðar. Þegar ég sendi mynd sendi ég hana ekki bara í einu lagi heldur er henni skipt niður í margar gagnasendingar sem geta farið hver sína leið. Þá þurfa þær ekki að fara í röð heldur fara margar leiðir á sama tíma og þannig séð verið enn þá fljótari. Þetta er ákveðin „multi-homing“ leið, ef ég má sletta, ég kann ekki alveg íslenskuna, en þetta er svona fjölleið eða eitthvað því um líkt. Þetta er eins og það væru tveir bílar að keyra hringveginn og annar bíllinn færi hægar en sá sem færi hraðar færi af stað á eftir þeim sem er hægvirkari. Þá væri betra að hann færi hina leiðina á móti, annar keyrði norðurleiðina, hinn suðurleiðina. Það myndi gera að verkum að við fengjum alla vega hraðskreiðari bílinn fyrr á leiðarenda en ef hann hefði elt hægfara bílinn. En ef við þurfum báða bílana hjálpar það kannski ekki svo mikið en möguleikarnir eru alla vega til staðar og við getum unnið úr þeim möguleikum.

Hvað þessi mál snertir sem við ræðum hérna, hvernig við högum kerfinu og reglunum um þessi mál sem þróast gríðarlega hratt tæknilega séð, þurfum við að vara okkur á offjárfestingu í þeirri tækni sem við búum við núna en á sama tíma verðum við að reyna að tryggja góða útbreiðslu. Þetta er ákveðin jafnvægislist, við þurfum að vega og meta hvort er mikilvægara; að ná góðri dreifingu, á minni svæðum og úti um allt og slæmri tengingu á milli þeirra eða reynum við að ná jafnri góðri tengingu yfir allt. Ákvörðunin hingað til hefur verið að reyna að ná frekar jafnri dreifingu úti um allt sem fyrst. Ég tel það mjög góða ákvörðun. En þá horfir maður samt á að við erum að leggja tvöfalda útgáfu af þessum kerfum sem leiðir til þess að þegar maður keyrir hringveginn er maður inni á öðrum hvorum sendi eins og hefur verið lýst hérna. Það er ekki mjög skilvirkt þegar upp er staðið.

Ef þetta væri eins og internetið er notað myndi notandinn bara flæða á milli tengipunkta óháð því hver á tengipunktinn. Þar gilda eðlilegir samningar um notkun og það er það sem gerist þegar erlendi ferðamaðurinn kemur hérna og flakkar um landið, þá dettur hann bara inn á alla punktana eins og ekkert sé. Það er í raun mjög skrýtið að innlend símakort virki ekki á sama hátt. Það er eiginlega stórfurðulegt.

Ég vildi eiginlega skilja þessa umræðu eftir á þessum stað. Tækniframfarirnar eru hraðar, við verðum að huga að þessu jafnvægi milli framtíðartækni og offjárfestingu í nútímatækninni og í dreifingunni sem við þurfum samt að ná til þess að halda í við þróunina annars staðar. Og ég vil minna á að við þurfum að vinna og huga vel að þessu vandamáli. Við erum með dreifbýlt land. Þá er þetta ekkert auðvelt. Ég mæli með því að við rýnum þetta mjög vel og reynum að haga því þannig að þessu jafnvægi sé sinnt á þann hátt að aðgengi sé ekki vandamálið og ferðin sem slík sé ekki vandamál. Það kemur kannski niður á ákveðnu sjálfstæði þeirra sem byggja upp tengihnútana til að hafa stjórn á sínum tengistöðvum en að sjálfsögðu ættu fyrirtæki sem byggja upp slíkt net að vilja fá til sín viðskiptavini óháð því hvort þeir eru bara í viðskiptum við það fyrirtæki eða hvort þeir komi sem viðskiptavinir frá einhverju öðru fyrirtæki, hvort sem er aukast viðskiptin. Mig langaði að skilja þessa umræðu eftir í þeirri hugsun.