148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:47]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mér er stundum mjög annt um hugtök og ég ætla að ræða um þau. Ég ætla ekki að ræða um þessi samskiptamál þannig séð, ekki um auka-hertz eða tíðnisvið og heldur ekki draga úr mikilvægi síma og alnets, heldur fjalla örstutt um hugtakanotkun í tengslum við frumvarpið sem hefur heyrst í þingsal í þessum umræðum. Ég er að tala um hugtakið mannréttindi. Þegar menn líta svo á að internetsamband sé mannréttindi eða að greið samskipti séu mannréttindi vil ég bara minna á hvernig mannréttindi eru skilgreind. Þau eru skilgreind svona, með leyfi forseta:

„Mannréttindi eru hugmyndin um að allir menn njóti ákveðinna grundvallarréttinda sem ekki verða af þeim tekin og eru í gildi í hvaða lögsögu sem er og óháð þáttum eins og kyni, þjóðerni og kynþætti.“

Ég tel að þetta eigi ekki við um samskiptanet á Íslandi, þ.e. tæknileg eða samfélagsleg réttindi. Það er allt annar hlutur.

Ég nefni þetta vegna þess að menn veifa stundum hugtökum í samfélagslegri umræðu sem ekki eiga við nákvæmlega það sem verið er að ræða um. Ég vona að allir hv. þingmenn hafi þennan skilning á hugtakinu mannréttindi og umgangist það af þeirri virðingu sem þessu hugtaki ber og noti það í nothæfu samhengi þegar við erum í ræðustól.