148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og andsvörin hér áðan leiddu í ljós erum við að tala um ríkisstjórnarmál. Þá spyr ég að sjálfsögðu: Hvar er ríkisstjórnin? Hún þarf að vera hér til þess að hægt sé að tala um þetta mál því að stefnan, eins og ég talaði um hér áðan, er ekkert útskýrð, hún er ekkert grunngjaldamiðuð. Það er ekkert útskýrt þar. Ef eitthvað fer úrskeiðis í efnahagnum, ef það kemur niðursveifla, er þá verið að fara í niðurskurð eða ekki, eða er verið að fara í hækkun skatta eða ekki? Þessu er ekkert svarað í stefnunni. Þess vegna þurfum við ráðherrana hingað til þess að spyrja þá, til að þeir geti svarað okkur. Ég kalla eftir því að ráðherrarnir mæti. En að sjálfsögðu væri mjög eðlilegt að taka frávísunartillöguna fyrst fyrir og þá þurfa þeir kannski ekkert að mæta, væri fínt ef þeir myndu ekki greiða atkvæði.