148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Vönduð vinnubrögð, virðing Alþingis, traust til Alþingis, þetta eru orð sem okkur mörgum leika á tungu, ekki síst þeim sem fara með ríkisstjórnina og styðja ríkisstjórnina. Nú ber svo við að við erum að ræða fjármálastefnu til fimm ára, grundvallarplagg ríkisstjórnarinnar. Það er enginn ráðherra hér. Fjármálaráðherrann lætur ekki svo lítið að vera viðstaddur umræðuna. Forsætisráðherra er erlendis, þannig vill til. Hér má segja að þetta mál sé allt skilið eftir í höndum hv. formanns fjárlaganefndar þingsins sem hefur að vísu breitt bak og er alls góðs maklegur, en mér þykir þetta ákaflega ósanngjarnt af hæstv. ríkisstjórn og nánast þannig að það er ekki líðandi. Ég tek undir kröfuna um það að við gerum hlé á þessum fundi.