148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fyrst er að segja að þegar ráðherra hefur lagt mál til þingsins, hvort sem það er um að ræða frumvarp eða þingsályktunartillögu, og mælt fyrir því í þinginu þá er málið formlega úr hans höndum og komið í hendur þingsins.

Þegar nefnd skilar áliti að lokinni umfjöllun þá er ráðherra ekki aðili þess máls öðruvísi en aðrir þingmenn, það eru framsögumenn meiri hluta og minni hluta sem bera málið uppi í þinginu, þannig að það sé sagt.

Síðan varðandi tillöguflutning stjórnarandstöðunnar þá held ég að menn þurfi aðeins að athuga þingsköpin og gá hvað er frávísunartillaga og hvað er tillaga um rökstudda dagskrá. Tillaga um rökstudda dagskrá er tekin fyrir samkvæmt ákveðnum reglum en frávísunartillaga er tekin fyrir eins og hver önnur breytingartillaga í lok umræðu. (Gripið fram í: Ha?)