148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt varðandi frávísunartillögu, hún er eins og breytingartillaga og umræða um hana þyrfti þá að eiga sér stað eftir að þessari 2. umræðu er lokið. Aftur á móti er rangt sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir um að ráðherra þurfi ekki að vera í salnum af því að hann sé einhvern veginn búinn að skila málinu af sér. Nei. Reglan sem okkur er kennd í forsætisnefnd, ég er varaforseti þar, er svona: Ef óskað er eftir því að ráðherra verði til staðar í umræðu í því máli sem hann hefur lagt fram skal orðið við því. Hérna eru allir að biðja um það — eðlilega — til að geta átt samtal við fjármálaráðherra um það mál sem hann leggur fram um fjármálastefnu sem er eitt mikilvægasta plaggið sem ríkisstjórnin leggur fram og þá þarf að verða við því ef hægt er að verða við því. Það geta verið undantekningar, menn geta verið erlendis eða eitthvað svoleiðis en núna virðist það ekki eiga við. Það að fjármálaráðherra hafi ekki hugsað sér sjálfur að vera í þinginu til að eiga orðastað um þetta eins og venjuhelgað er við þetta mál, hans mál, fjármálastefnu, er mjög einkennilegt. (Forseti hringir.) Tvennt getur gerst, við höldum áfram að tala um fundarstjórn forseta og kalla eftir því að fjármálaráðherra komi eða forseti (Forseti hringir.) frestar þessum fundi tímabundið þangað til fjármálaráðherra kemur.

Það er tvennt sem getur gerst. Ef ég væri forseti myndi ég fylgja meginreglunni og annaðhvort vera viss um að fjármálaráðherra (Forseti hringir.) væri á leiðinni og þá gætum við haldið áfram að tala í smástund eða bara best (Gripið fram í.)væri að fresta honum tímabundið. En sjáðu, (Forseti hringir.) nú er ég kominn langt umfram þessa (Forseti hringir.) leikreglu sjálfur, [Hlátur í þingsal.] en (Forseti hringir.) — takk.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því enn til hv. þingmanna að þeir virði tímamörk.)