148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki varist þeirri tilfinningu að hvorki ríkisstjórn né stuðningsmönnum hennar þyki nokkuð liggja við að þessi fjármálastefna verði yfirleitt samþykkt. Þar sem mætingin er með þeim hætti sem raun ber vitni þykir mér harla fróðleg sú skýring sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, og að hluta til hv. þm. Haraldi Benediktssyni, að það sé nú algjör óþarfi að vera að kalla eftir ráðherranum því að þeim komi þetta ekki við lengur.

Ég þykist vita að það hafi nú hent þessa ágætu virðulegu þingmenn að hafa kallað eftir ráðherrum til þess að vera viðstaddir umræðu í þinginu. Hefur eitthvað breyst í skoðunum hv. þingmanna á hlutverki ráðherra í aðdraganda þessarar umræðu? Getum við þá treyst því að í framtíðinni (Forseti hringir.) muni þeir aldrei kalla eftir viðveru ráðherra við umræðu af þessu tagi? Getum við treyst því, hv. þingmenn?