148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

335. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Heimi Skarphéðinsson frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017, frá 22. september 2017, um breytingu á XIX. viðauka, neytendavernd, við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingar á reglugerð nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 22. mars 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2302 er ætlað að styrkja neytendavernd með því að víkka út gildissvið gildandi löggjafar um pakkaferðir svo hún nái einnig yfir það sem kalla má samtengda ferðatilhögun. Þá mælir tilskipunin fyrir um gagnkvæma viðurkenningu tryggingakerfa. Í eldri tilskipun, sem innleidd var með lögum nr. 80/1994, um alferðir, voru innleidd mikilvæg réttindi fyrir neytendur sem keyptu sér alferð, pakkaferð. Sú neytendavernd tekur aftur á móti ekki til þeirra sem setja saman sínar eigin ferðir og er tilskipuninni ætlað að tryggja þessi réttindi.

Hvað varðar gagnkvæma viðurkenningu tryggingakerfa þá hefur tilskipunin þau áhrif að íslenskir neytendur geta nú gengið að því vísu að seljendur í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem markaðssetja sig yfir landamæri séu tryggðir á fullnægjandi hátt. Þetta kann að auka samkeppni milli seljenda yfir landamæri sem getur falist í því að ferðaþjónustufyrirtæki kjósi að flytja starfsemi sína eða höfuðstöðvar þangað sem tryggingakerfi eru hagkvæmust. Ólíklegt er að þetta komi til með að gera íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir.

Innleiðing tilskipunar 2015/2302 kallar á lagabreytingar hér á landi. Lög nr. 80/1994 verða felld brott og sett ný heildarlög í staðinn. Afleidd breyting verður væntanlega einnig á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005. Gert er ráð fyrir því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi fram frumvarp til laga á yfirstandandi löggjafarþingi.

Að þessu gefnu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.

Hv. þingmenn Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Bryndís Haraldsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þeir sem samþykkir voru voru hv. formaður nefndarinnar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Logi Einarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigríður María Egilsdóttir, Smári McCarthy og Stefán Vagn Stefánsson.