148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[20:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Mér finnst gaman að lesa nefndarálitið og sjá að það var afgreitt frá allsherjar- og menntamálanefnd 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, því að hér er mikilvægt baráttumál vonandi að ná í gegn.

Ég vil líka þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir að bjóða mér að vera einn meðflutningsmanna þessa góða máls og fyrir að hafa leitt málið býsna farsællega í gegnum nefndina. Við fengum almennt frekar jákvæðar umsagnir en gera þurfti nokkrar lagfæringar á málinu. Það var gert lipurlega. Hér munum við færa í lög jákvæða og vel útfærða framkvæmd.

Eins og fram hefur komið er þetta í raun breyting sem hefur lítil áhrif á sönnunarstöðu í dómsmálum eða framkvæmd innan kerfisins. Þetta er annars vegar verkfæri til að auka almenna réttarvitund fólks þannig að það viti hver staðan er í kynferðisbrotamálum. Og síðan það sem eru lúmskari áhrif sem við hugsum ekki nógu oft um þegar við setjum lög; þetta er uppeldisregla gagnvart samfélaginu. Það er verið að kenna fólki, sérstaklega komandi kynslóðum, hvernig samskipti eiga að vera. Hvernig við megum koma fram hvert við annað. Þetta eru skýr skilaboð sem munu hafa jákvæð áhrif til lengri tíma. Hugsanlega mun kærum fjölga þegar frá líður en hugsanlega mun þeim fækka vegna þess að fólk mun einfaldlega kunna samskipti á milli einstaklinga betur.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta en má til með að nefna, vegna þess að ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í síðustu viku, að þar gengu um salina ungmenni sem komu þangað í hóp frá ýmsum löndum og gengu á milli fulltrúa í sendinefndum sem flestra ríkja með skýr skilaboð. Þau voru með, mér liggur við að segja, bænaskjal til þess að leiða heimsbyggðinni fyrir augu mikilvægi þess að lögfesta samþykki. Þarna var verið að berjast fyrir því á alþjóðavísu að ríki heims gerðu það sem hér er lagt til að Ísland geri. Þar verðum við eitt fyrsta ríkið til að stíga þetta heillaskref. Og vonandi hið fyrsta af mörgum.

Kann ég hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni hinar bestu þakkir fyrir.