148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[21:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir þessi orð. Þau eiga svo sannarlega vel við í þessari umræðu.

Ég er einn af flutningsmönnum þessa ágæta frumvarps og á ekki sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég verð að segja að það gleður mig mjög að sjá þetta mál hér á dagskrá og að sjá að hv. allsherjar- og menntamálanefnd er saman á einu nefndaráliti þar sem lagt er til að frumvarpið verði samþykkt með lítils háttar breytingum.

Ég segi fyrir mitt leyti að þegar mér var boðið af hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni að vera með á þessu frumvarpi skoðaði ég það og var svo sannarlega sammála innihaldinu og megintilganginum en var þó bent á af ýmsum aðilum að það gætu verið einhver lagatæknileg flækjuatriði til staðar og sú sem hér stendur, sem er ekki lögfræðimenntuð, átti svolítið erfitt með að ná utan um þau. Þannig að mér finnst ánægjulegt að lesa í gegnum þær umsagnir sem borist hafa um málið. Þær líta út fyrir að vera mjög ítarlegar og vel unnar. Í kjölfarið liggja fyrir í nefndarálitinu breytingartillögur sem koma til móts við þessa þætti.

Mig langaði nú bara að fá tækifæri til að koma hér upp og segja að ég fagna þessu. Það er áhugavert að sjá að hér er frumvarp sem er lagt fram af óbreyttum þingmönnum og það er komið á þennan stað í ferlinu og nefndin öll tekur undir að þetta mál beri að samþykkja. Margir góðir umsagnaraðilar taka undir mikilvægi þess að hér er um mjög svo táknræna breytingu að ræða sem felst einmitt í þessu samþykki. Ég þakka hv. nefnd fyrir að fjalla um þetta með þessum hætti og að sjálfsögðu öllum þeim umsagnaraðilum sem hafa lagt málinu gott lið.