148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[21:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka hv. 1. flutningsmanni þessa frumvarps, sem og framsögumanni nefndarálits allsherjar- og menntamálanefndar, Jóni Steindóri Valdimarssyni, í fyrsta lagi fyrir að leggja þetta frumvarp fram og svo líka fyrir það hvernig hann tók utan um það og utan um ábendingar sem nefndinni bárust frá umsagnaraðilum.

Ég verð að segja að þetta er með jákvæðari málum sem ég hef fylgt í gegn, frá því að mælt er fyrir því — við erum nú ekki alveg komin að því að samþykkja það — og þar til nefnd afgreiðir það. Vinnan var til svo mikillar fyrirmyndar. Gengið var í að taka við umsögnunum og gera þær litlu breytingar sem gera þurfti til þess að málið yrði fullbúið. Það fyllir mig alveg gríðarlega mikilli von um að við séum að taka mikilvæg skref og að ná mikilvægum árangri þegar kemur að kvenfrelsismálum og kynjajafnrétti á Íslandi, sem og því að takast á við það samfélagslega böl sem kynferðislegt ofbeldi er. Þess vegna er svo mikilvægt að okkur hafi lánast að vera samferða í því að leiða þetta mál til lykta.

Í öllum umsögnum og í máli þeirra gesta sem komu fyrir nefndina var mjög áberandi áherslan sem lögð var á mikilvægi fræðslu og upplýsinga þegar kemur að kynferðislegu samneyti fólks og svo því að samþykki þurfi alltaf að liggja til grundvallar. Ég held að það sé það sem við þurfum að taka síðan upp á næsta stig í framhaldinu, þ.e. fræðslumálin. Þess vegna vona ég sannarlega að við munum á næstu dögum samþykkja þetta mál.

Mig langar að benda á að fyrir þinginu liggur einnig þingsályktunartillaga frá Unu Hildardóttur, varaþingmanni Vinstri grænna, sem gengur út á að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem endurmeta á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Það held ég að sé það næsta sem við þurfum að gera. Eins og einhver hv. þingmaður sagði fyrr í umræðunni er ekkert víst að þetta frumvarp verði endilega til þess að fjölga þeim málum sem kært er á grundvelli á, en það gæti orðið til þess að fækka þeim. Ég held að það verði svo sannarlega til þess að fækka þeim ef okkur auðnast í framhaldinu að efla fræðsluna og umræðuna í samfélaginu.

Ég ætla ekki að tefja umræðuna um þetta mál frekar heldur lýsi ég enn og aftur yfir ánægju minni með það og vona að við höldum áfram á sömu braut þegar kemur að þessum mikilvægu málum, að vinna saman að góðri niðurstöðu fyrir okkur öll og gera virkilegar samfélagslegar breytingar varðandi það hvernig við tökum á kynferðislegu ofbeldi. Og vonandi útrýmum við því.