148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að hv. þingmaður treystir sér ekki til að svara þeim spurningum sem ég beini til hans heldur þurfi að nýta þann litla tíma sem hann hefur hér til að snúa dæminu við og beina spurningum til mín. Það kemur kannski ekki á óvart. Enginn hv. þingmaður hefur talað jafn mikið um Vinstri græn síðan þessi ríkisstjórn tók við og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson. Ég þakka honum athyglina. Hún er falleg, við erum upp með okkur af henni. Við vitum að þér er annt um okkur.

Ég gerði það að gamni mínu að telja, þetta nefndarálit er 2.333 orð, 796 af þeim eru tilvitnanir í ræður okkar þingmanna Vinstri grænna um allt aðra fjármálastefnu. Og svo gildishlaðnar setningar eins og: Það er nefnilega það. — Ég verð að játa að ég skil þetta ekki sem þingskjal. Við gagnrýndum fyrri fjármálastefnu fyrir þetta lögbundna útgjaldaþak. Það var viðbót og hafði ekkert um lög um opinber fjármál að gera. Hv. þingmaður var ekki í þingsal þá þannig að það er ljúft og skylt að upplýsa hann um það.

Það sem hefur breyst núna er að nú erum við ekki með það lengur lögbundið hér. Fjármálaskilyrðin í lögunum ein og sér eru alveg nógu ströng. Nú er þetta afturvirkara sem sveiflujöfnunartæki. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður sér ekki muninn á þessu get ég ekki hjálpað honum á þeim tíma sem ég hef hér.