148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert í það minnsta að hlýða á þessa yfirferð og ég hlýt að nota þetta tækifæri til að minna á það að frá því að fjármálastefnan var birt höfum við gengið frá tugum eða a.m.k. á annan tug kjarasamninga á ágætisnótum. Aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið til skoðunar samninga sína og framlengt þá, ekki virkjað endurskoðunarákvæðið, vegna þess að menn töldu enga ástæðu til þess í sjálfu sér. Til viðbótar við þetta höfum við fengið vaxtaákvörðun frá Seðlabankanum sem hækkaði ekki vexti þrátt fyrir allar þessar dómsdagsspár um það sem myndi fylgja í kjölfar fjármálastefnunnar.

Ég vil bara kalla eftir því að í stað þess að hv. þingmaður sé að lesa upp úr gömlum umræðum um aðra fjármálastefnu en þá sem er hér til umræðu geri hann betur grein fyrir þeim sköttum sem hann kallar eftir að verði hækkaðir hér á landi og hvaða útgjöld það eru sem hann telur að hefði átt að fjármagna í þessari áætlun. Ég sé ekki í nefndarálitinu neitt annað (Forseti hringir.) en upptalningu úr öðrum innsendum erindum. Mér finnst að hann mætti gera betur grein fyrir máli sínu um þær breytingar á tekju- og gjaldahlið sem hann vill sjá gerast.