148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í fjárlögum fyrir 2018 að mjög mikilvægt væri að styrkja tekjustoðirnar. Við byggðum á þessum þremur tekjustoðum sem væru mjög stórar og í raun mjög fallvaltar ef sveifla kæmi á efnahaginn. Við erum einmitt í því núna. Ef við skoðum þjóðhagsspá snemma 2017 þá var spáð 6% hagvexti fyrir 2017. Hann datt niður í 3,8%. Það var spáð 3,1% hagvexti fyrir 2018. Hann er samkvæmt þjóðhagsspá kominn niður í 2,9 þannig að við erum búin að fara frá 6% hagvexti niður í 2,9%. Við erum í dálítilli niðursveiflu, myndi ég halda. Kannski þýðir það að smá skattalækkun væri hentug í niðursveifluaðgerð, ég veit það ekki. Við fengum ekki neitt sérfræðiálit á því.

Hvað það varðar hversu lík þessi fjármálastefna er síðustu þá held ég að tölulega séð, varðandi afkomuna o.s.frv., væri sama hvaða ríkisstjórn væri við völd, tölurnar væru mjög áþekkar. Þetta eru það stórar tölur í hlutfalli vergrar landsframleiðslu að það væri kannski 1,1 hjá einni ríkisstjórn og 1,2 hjá næstu ríkisstjórn. Ég held að þær tölur verði alltaf mjög svipaðar, stefnan sjálf. En það sem er ekki gert, hvorki í þessari fjármálastefnu né síðustu, er að markmiðin, til að ná þeim tölum sem settar eru fram, þeirri afkomu o.s.frv., eru ekkert rökstudd. Það er álit fjármálaráðs í bæði skiptin. Á þann hátt eru þær nákvæmlega eins, þær eru ekkert rökstuddar.