148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég veit ekki af hverju ekki er reynt að rökstyðja stefnuna út frá grunngildunum. Ég veit ekki af hverju það er ekki einu sinni reynt. Ég veit ekki heldur af hverju hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki hérna. En ég hef giskað á það áður að það sé svo heppilegt að fá bara tóman tékka.

Ef ekki er útskýrt hvað menn ætla að gera þá geta þeir gert hvað sem er. Þá verður eftirlit og sérstaklega eftirlitshlutverk þingsins rosalega erfitt. Við getum ekki farið og sagt: En þið ætluðuð að gera þetta og þetta sem þið svo gerðuð ekki. Af því að þegar verið er að leita til okkar með svona fjármálastefnu sem ekki er rökstudd, ekki sett fram stefna sem er útskýrt hvernig uppfyllir grunngildin, þá getum við ekki farið eftir á og sagt: Þetta og þetta gerðist, þið beittuð þeim aðferðum sem þið sögðust ætla að gera, en það gerðist ekki, það klúðraðist einhvern veginn, ekki koma til okkar aftur með þær útskýringar að það væru ófyrirséðar aðstæður og ætlunin væri að vinna með þinginu í að fara í hlutina. Þær aðgerðir sem við lögðum upp með munu ekki koma til með að leysa þær aðstæður sem við lentum í. Það getur alltaf gerst.

Það geta komið upp óeðlilegar aðstæður sem ekki var gert ráð fyrir í fráviksspám eða sviðsmyndagreiningum, það getur alveg gerst. Þær sviðsmyndagreiningar eiga að minnka líkurnar á að svoleiðis aðstæður komi upp. En við erum ekki með neina, ekki eina. Við erum jú með eina sem er sagt frá að hafi verið gerð en við fáum ekki einu sinni að sjá hana. Það er eitthvað ekki alveg rétt við það.

Ég vil sjá tilraun til þess að rökstyðja fjármálastefnuna. Þess vegna vil ég vísa henni til baka til ríkisstjórnar.