148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Hversu langan tíma þurfum við að hafa stöðugleika til þess að vera með raunverulegan stöðugleika? Ég held að það sé alveg augljóslega ekki mælt í tveimur árum eða fjórum árum eða þess vegna tíu árum. Ég held að við mælum stöðugleika í áratugum af því að við sjáum auðvitað þessar síendurteknu sveiflur hjá okkur sem taka oft einmitt tíu ár að ganga yfir. Nú trónum við á toppi einnar slíkrar sveiflu. Ef við horfum þrjá áratugi aftur í tímann sjáum við að þessar sveiflur eru, ef eitthvað er, að magnast án þess að skila okkur endilega eitthvað betri árangri.

Stöðugleiki er auðvitað afstæður í þessu samhengi, en það má benda á að jafnvel biluð klukka hefur rétt fyrir sér tvisvar á sólarhring, en það þýðir ekki að í því felist stöðugleiki.

Ég held að þegar við berum okkur saman við nágrannaþjóðir okkar ættum við að horfa til frænda okkar Íra sem risu upp úr því fyrir um fjórum áratugum síðan að vera ein fátækasta þjóð Evrópu, í það að verða núna ein ríkasta þjóð Evrópu á mælikvarða landsframleiðslu á mann (Forseti hringir.) í fastgengisumhverfi, fyrst í bresku pundi, síðan í evru. Þetta hefur verið stöðugur uppgangur. Þetta er það sem við getum lært af.