148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra alveg sérstaklega fyrir þetta andsvar af því að hann leggur mér orð í munn í þessum efnum. Ég er einmitt að gagnrýna útgjaldaaukninguna af því að hún grefur undan svigrúminu til skattalækkana sem ég held að ég og hæstv. fjármálaráðherra séum fyllilega sammála um að þurfi að grípa til til lengri tíma litið.

Það er vissulega svo að stjórnarandstaðan hefur líkt og stjórnarmeirihlutinn ólíkar áherslur í þessu. Við töluðum mjög skýrt fyrir kosningar. Við töluðum ekki fyrir þessum gríðarlegu útgjaldaaukningum sem hér er verið að tefla fram. Við töluðum þvert á móti fyrir því að það þyrfti að sýna aðhaldssemi í ríkisfjármálunum á þessum tímapunkti, það þyrfti að leggja alla áherslu á að greiða niður skuldir af því að með niðurgreiðslu skuldanna væri hægt að skapa svigrúm í ríkisfjármálum til lengri tíma litið, bæði fyrir skattalækkanir og þær nauðsynlegu innviðafjárfestingar sem þyrftu að eiga sér stað.

Það er ekki hægt að gera allt í einu. Góðærið verður einmitt fyrst og síðast að nýta til þess að lækka þessa gríðarlegu skuldabyrði ríkissjóðs. Við erum enn að greiða um 2,5% af landsframleiðslu í vexti. (Forseti hringir.) Það er hægt að draga þar verulega úr og nýta svigrúmið til þess að lækka skatta.