148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Þar með er það komið fram hérna í umræðunni að stjórnarandstaðan talar algjörlega út og suður. Sumir tala fyrir skattalækkunum sem mér heyrist hv. þingmaður vera að gera, aðrir leggjast mjög hart gegn skattalækkunum. Hv. þingmaður er á móti útgjaldaaukningunni sem við erum að leggja til hér til þess að setja meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið. Við ætlum að auka fjármuni í vegagerð á Íslandi. Við munum setja aukna fjármuni eins og hv. þingmaður áformaði einu sinni í almannatryggingar, t.d. til þess að ljúka samningum um breytingar á almannatryggingakerfinu fyrir öryrkja. Svona mætti áfram telja. Menntakerfið mun sömuleiðis fá auknar fjárveitingar og fjárheimildir.

Allt er þetta fjármagnað ágætlega með góðum afkomumarkmiðum, líklega einhverri bestu afkomu innan OECD sem stefnt er að á næstu fimm árum, á sama tíma og við lækkum skuldir í framhaldi af því að hafa greitt nú þegar á árunum frá 2013 600 milljarða af skuldum. (Forseti hringir.) Vaxtabyrðin stefnir í það sem hún var á fyrirhrunsárunum, en ég kannast bara ekkert við það (Forseti hringir.) að í þeirri mynd sem hér er verið að draga upp sé einhver ósjálfbærni í kortunum.