148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er að mörgu að huga í þessu. Þegar við ræðum sjálfbærni ríkisfjármála þurfum við að huga að því, eins og ég nefndi, að þetta snýst ekki bara um skuldalækkunina. Að við séum aflögufær á hápunkti hagsveiflunnar, maður skyldi ætla það, að hægt væri að greiða skuldir eitthvað niður. Sjálfbærnin snýst líka um kynslóðirnar, að við göngum ekki, í afstillingu okkar í ríkisútgjöldunum, á hlut framtíðarkynslóða þessa lands, heldur sé alveg ljóst að við stöndum, með þeim skatttekjum sem við erum að afla, undir þessum útgjaldaloforðum, þessum þjónustuloforðum sem við erum að veita um langa framtíð, ekki að velta ábyrgðinni yfir á það að við séum búin að stilla hér af gæðin, ef svo mætti orða það, með þeim hætti að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur, þegar um hægist á hagkerfinu, að velta aukinni skattbyrði yfir á framtíðarkynslóðir. Að þessu þurfum við stöðugt að gæta. Það er þarna sem ég held að við þurfum að huga sérstaklega að sjálfbærnihugtakinu.