148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrir um tveimur vikum, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sat ég ásamt fleiri hv. þingmönnum ágætt málþing í Hofi á Akureyri sem skipulagt var af Byggðastofnun um raforkumál á Íslandi. Þarna var verið að ræða mikilvægt málefni sem snertir alla íbúa landsins, nema að því virtist konur, a.m.k. ef marka mátti dagskrá málþingsins þar sem af sjö fyrirlesurum var aðeins ein kona sem fékk svo ekki að taka þátt í panel þar sem mikilvægari karlmaður þurfti að komast að.

Með fullri virðingu fyrir þeim ágætu karlmönnum sem þarna fluttu framsögu þá gerði ég athugasemdir við forstjóra og formann stjórnar Byggðastofnunar áður en málþingið hófst um að aðeins eina kona væri á mælendaskrá, og ætlaði raunar að láta það duga. En þegar kom að pallborðsumræðunni og í ljós kom að ekki var pláss fyrir þessa einu konu var mér hreinlega nóg boðið og ég gekk út.

Herra forseti. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir hér í ræðustól og ég vona sannarlega að allir ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur taki þær til sín og komi þeim áfram til forstöðumanna stofnana sinna. Það er ekki í lagi að árið 2018, í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað síðustu vikur, mánuði og ár, að opinberar stofnanir, eða raunar nokkur yfir höfuð, standi fyrir viðburðum þar sem hallar jafn mikið á annað kynið og raun bar vitni á þessum fundi, sérstaklega þar sem augljóslega og auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir það í þessu tilfelli. Ríkið og stofnanir þess eiga að ganga á undan með góðu fordæmi og ávallt hafa kynjagleraugun á nefinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)