148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Við hljótum að ganga út frá því að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn sem styður ríkisstjórnina hafi hugsað sér að fara eftir lögum. Við hljótum að ganga út frá því þegar við ræðum fjármálastefnuna og vinna með hana að til hennar sé vandað þannig að hún geti staðið í fimm ár. En það er augljóst að þröngur stakkur er skorinn og þetta er mjög nákvæmt. Ríkissjóður á að skila afgangi á árinu 2018 upp á 32.352 millj. kr. Við verðum að standa við það ef við miðum við verga landsframleiðslu upp á 2.670 milljarða.

Ef meiri hluti fjárlaganefndar hefði, þó það væri ekki nema bara það, farið eftir þeirri ábendingu fjármálaráðs að setja þessi markmið upp á bili, kannski frá 1% upp í 2%, ég nefni eitthvað í staðinn fyrir að segja að það eigi að vera akkúrat 1,4% af vergri landsframleiðslu sem við ætlum að skila í afgang. Þá er strax kominn sveigjanleiki í hlutina. Þá þurfum við ekki að hlaupa til og hækka skatta eða skera niður í velferðarþjónustunni til þess að láta dæmið ganga upp eða borga skuldir hægar niður. En það er það sem við þurfum að gera til þess að láta þetta ganga upp. Nema ef hér verður efnahagshrun, þá búum við náttúrlega til nýja stefnu.