148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt að skoða þær fjármálastefnur sem komið hafa fram núna þrisvar í röð, það munar ekki rosalega miklu á tölunum í heildarafkomu og því um líku, 0,2 og 0,1 hljóma ekki sem rosalega stórar tölur. 0,1 er um 2,5–3 milljarðar. Mér finnst ekkert óeðlilegt að álykta sem svo að þó að það sé sett fram í einum aukastaf er námundunin þar innan ekkert óeðlileg. Ef það á að ná 1,4 þá er 1,35–1,44 innan námundunarvikmarka.

Ég held að allir flokkar gætu samþykkt fjármálastefnuna sem er með u.þ.b. þeim tölum sem settar eru fram, kannski 0,2 hærri eða 0,2 lægri eitthvað svoleiðis. Það munar ekki rosalega miklu í þessum tölum Það sem vantar hins vegar er útskýringin á því hvernig á að ná því og hvað á að gera við þessar tölur. Það er það sem vantar og það er það sem við ættum að tala um. Í fjármálastefnunni segir að aukning eigi að vera til innviða, aukning í heilbrigðiskerfið og menntamál, talað er um stofnun þjóðarsjóðs, skattalækkun, lýðfræðilegar breytingar, auknar tekjur, kjarasamninga og að bæta stöðu yngri kynslóða á húsnæðismarkaði.

Það er svo rosaleg mótsögn í þessu, þ.e. lækkun skatta og hækkun til heilbrigðiskerfisins og það eru auknar tekjur inni í þessu líka þrátt fyrir skattalækkun. Það er svo mikil mótsögn og ég sé ekki hvernig það virkar óháð því hvernig tölurnar eru fremst í fjármálastefnunni. Þær skipta svo sem minnstu máli, það vantar rökstuðninginn á bak við og útskýringarnar á því hvað eigi að gera. Þær passa ekki saman. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi kannski séð (Forseti hringir.) eitthvað eða geti byggt á reynslu sinni sem fær þetta til þess að passa saman.