148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta getur alveg gengið upp ef við siglum lygnan sjó og hagvöxtur heldur áfram að vaxa. Það er hins vegar fullt af viðvörunarljósum sem blikka og allt sem bendir til þess að við séum að fara niður brekkuna núna. Það sem ég hef áhyggjur af í þessari fjármálastefnu er að nánast ekkert er talað um tvær risastórar breytur, sem eru ferðaþjónustan og húsnæðismálin. Þessi mál eru rosalega stór og skipta miklu máli fyrir efnahaginn.

Nú er búið að fjárfesta mikið í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustuaðilar verða að treysta á að hér verði innviðauppbygging þannig að hægt verði að taka á móti fleiri ferðamönnum. Við vitum alveg hvernig vegirnir eru. Við vitum hvernig álagið er á lögregluna. Við vitum hvernig álagið er á bráðamóttökur heilsugæslanna um land allt vegna þess að hér fjölgar ferðamönnum. Og það hefur auðvitað bjargað efnahagnum. En hvernig ætlum við að sjá til þess að fjárfestingarnar sem við höfum lagt út í borgi sig til framtíðar? Hvernig ætlum við að sjá til þess? Það gerist ekki með því að halda niðri í sér andanum. Það verður eitthvað að gera og taka á því.

Sama er með húsnæðisvandann. Það verður að taka á honum. Hann er það mikill að markaðurinn mun ekki laga hann sisvona. Stjórnvöld verða að grípa inn í. Stjórnvöld verða að stíga þar inn í og fjölga félagslegum íbúðum til þess að koma til móts við stöðuna eins og hún er núna.