148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Mig langar að taka upp tengdan þráð úr nefndaráliti þingmannsins sem er varðandi það hversu tíminn er skammur. Í dag eru tveir mánuðir til sveitarstjórnarkosninga. 15. september síðasta árs var boðað til þingkosninga sem voru haldnar 28. október sama ár. Það var einn mánuður. Einhvern veginn náðist samt að halda þær kosningar býsna sómasamlega. Það náðist að skipuleggja #égkýs. Það náðist að útdeila kjörgögnum og gera allt eftir laganna hljóðan. Það náðist að framkvæma kosningar þar sem var farið frá núll og upp í 100 á einum mánuði. Hér erum við að tala um breytingu sem hvað varðar framkvæmd kosninganna er afskaplega einföld. Hún snýst um að viðbragðsaðilar, Þjóðskrá og kjörstjórnir, bæti tveimur árum í excel-skjölin sín. Síðan þurfum við auðvitað að bregðast við og tryggja fræðsluna og viðunandi umgjörð um það allt saman. Varðandi það langar mig að spyrja þingmanninn hvort hún sé sammála því sem kemur fram í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem segir að allir þeir sem komu fyrir nefndina hafi sagt að ekkert sé því til fyrirstöðu að framkvæma þetta allt á þeim tíma sem fyrir liggur — að umboðsmaður barna, fólkið sem stendur að #égkýs, kjörstjórnir, Þjóðskrá, allir þeir sem sjá um praktísk atriði í þessum kosningum, treysti sér til þess.