148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við hv. þingmaður, félagi minn og vinur Brynjar Níelsson, göngum lengra en líklegast mjög margir í þessum þingsal eru tilbúnir að gera. Ég geri mér líka grein fyrir því að svona álitamál koma upp varðandi lækkun á sjálfræðisaldri, m.a. það sem hv. þingmaður veltir fyrir sér hér, þ.e. hvernig þetta samrýmist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. Það eru líka önnur sjónarmið sem þarf að huga að. Ég er auðvitað til í að fara í gegnum þá umræðu en segi þá bara: Við skulum gefa okkur þann tíma sem við þurfum og ná breiðri samstöðu um það hvað við ætlum að gera og með hvaða hætti. Ég er til í þá umræðu hvenær sem er og veit að í þingsal er fólk sem kann vel til verka og getur leiðbeint mér betur en margir aðrir.

Varðandi aðra samræmingu á kosningalöggjöfinni eru innflytjendur eitt mál og það hvenær og hvernig þeir eigi að öðlast kosningarrétt. Það er kannski mikil einföldun af mér að segja að mér finnist að þegar fólk er búið að búa hér og það er ljóst að það er til frambúðar eigi það að öðlast sömu réttindi og við sem vorum svo gæfusöm að fæðast á Íslandi.

Ég veit að þetta er einfalt svar við flókinni spurningu, en stundum er ágætt (Forseti hringir.) að hafa ákveðið prinsipp í þessu. Ég kann ekki að svara hv. þingmanni betur.