148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér eftir að hafa hlustað á mál hennar hvort það sé rétt skilið hjá mér að inntakið hjá henni hafi verið að kosningarrétturinn sé með einhverjum hætti léttvægari réttur en ýmis annar sá réttur sem er bundinn við eldri aldursmörk. Í mínum huga er það út af fyrir sig bara ákvörðun og ekki hægt að fullyrða endilega að önnur hvor niðurstaðan sé rétt, 18 ár eða 16 ár, í þessu sambandi um það hvenær einstaklingar eru almennt færir um að taka ákvörðun um hvernig þeir verja atkvæði sínu. Ég held að hægt sé að miða og færa rök bæði með og á móti 16 ára aldrinum og 18 ára aldrinum og í sjálfu sér engin vísindaleg leið til að komast að niðurstöðu þar um.

Ég velti fyrir mér hvort það sé samt ekki ákveðin rökhugsun í því að segja þegar einstaklingur er orðinn fullveðja í flestum efnum, honum treyst til þess að ráða dvalarstað sínum og er orðinn fjárráða og annað þess háttar, að þar með sé viðkomandi orðinn fullgildur þátttakandi í samfélaginu og eigi þar af leiðandi að öðlast þau réttindi sem því fylgja, þar á meðal kosningarrétt. Ég þekki það auðvitað vel að í dag eru þessi aldursmörk mismunandi. Ég tel að þau séu á margan hátt mjög órökrétt, þ.e. mismunurinn sem birtist í 16 ára aldursmarki varðandi sumt, 18 ára aldursmarkið varðandi annað og 20 ára aldursmarkið varðandi þriðja þáttinn. Ef við treystum einstaklingi ekki til þess að taka ákvarðanir sem varða tiltölulega einfalda (Forseti hringir.) hluti í hans persónulega lífi, viljum við að hann hafi kosningarrétt?