148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist við hv. þingmaður vera tiltölulega sammála um að ákveðið ósamræmi sé í því þegar mismunandi réttindi sem varða einstaklinginn séu miðuð við mismunandi aldursmörk. Auðvitað var nokkuð stórt skref stigið fyrir ekki svo löngu þegar sjálfræðisaldurinn var hækkaður úr 16 árum upp í 18 ár. Fyrir því voru ýmsar ástæður og kannski misgóðar. Auðvitað héngu þar saman bæði réttindi og skyldur og þar á meðal réttur manna til ákveðinnar verndar sem börn o.s.frv. Það er nú þannig að ég hygg að samkvæmt núgildandi lagaumhverfi séu kannski flest réttindi með einhverjum hætti tengd sjálfræði og fjárræði og 18 ára aldri og kosningarrétturinn auðvitað þar á meðal.

Ég nefni þetta vegna þess að þegar við erum að taka ákvarðanir af þessu tagi hljótum við að velta fyrir okkur hvort það er eitthvert röklegt samhengi í þeim ákvörðunum sem við erum að taka, hvort við erum að taka tilviljanakenndar ákvarðanir, eins og þessu tilviki eða hvort það er partur af einhverri samræmdri stefnumörkun. Þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann í síðara andsvari hvort hún teldi að það væri eðlilegra að miða við það að kosningarréttur væri almennt bundinn við 16 ár en ekki bara í sveitarstjórnarkosningum.