148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

hvarf Íslendings í Sýrlandi.

[10:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Allra leiða hefur verið leitað til að komast að afdrifum Hauks Hilmarssonar. Við höfum lagt áherslu á að vinna náið með aðstandendum Hauks sem eiga um sárt að binda.

Við fyrstu fregnir, sem bárust þann 6. mars, leituðum við samráðs við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og ræðismenn Íslands á svæðinu. Formleg aðstoðarbeiðni frá fjölskyldu Hauks barst 7. mars og var málið sett í algeran forgang, enda um einstakt mál að ræða. Samdægurs var leitað til aðila á svæðinu og nokkurra ríkja sem hafa reynslu af svipuðum málum. Um leið og fregnir bárust af því að Tyrkir kynnu að hafa Hauk í haldi var haft samband við Tyrki í gegnum sendiráð Tyrklands í Ósló sem er æðsti fulltrúi tyrkneskra stjórnvalda gagnvart Íslandi og hafa íslensk og tyrknesk stjórnvöld, þar með talin hernaðarmálayfirvöld, verið í stöðugu sambandi eftir ýmsum leiðum frá þeim degi.

Til að árétta þá áherslu sem íslensk stjórnvöld leggja á málið hefur málið verið tekið upp við utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og fjölskyldumálaráðherra Tyrklands. Staðfesting hefur fengist á því að Tyrkir hafi Hauk ekki í haldi og að hans verði leitað meðal látinna og særðra á svæðinu. Aðrar upplýsingar liggja því miður ekki fyrir.

Starfsmenn borgaraþjónustunnar eru færustu starfsmenn utanríkisþjónustunnar til að sinna málum eins og máli Hauks vegna tengsla þeirra og reynslu. Auk þeirra hafa um 30 manns komið að máli Hauks, sem samsvarar ríflega 10% alls starfsliðs utanríkisþjónustunnar. Máli Hauks hefur verið sinnt af kostgæfni. Við erum öll í sama liði og leggjum okkur fram við að finna Hauk.

Haft hefur verið samband við vinaþjóðir okkar til að afla upplýsinga um hvernig staðið sé að svipuðum borgaraþjónustumálum. Nú síðast óskaði forsætisráðherra aðstoðar þýskra stjórnvalda á fundi sínum með kanslara Þýskalands. Samstarfsríkin hafa öll varað við að staðan sé einstaklega flókin, erfitt að afla upplýsinga og enn erfiðara að veita aðstoð. Þau ríki sem hafa fulltrúa á svæðinu hafa einnig fallist á að aðstoða við leitina en enn hefur ekki borist óyggjandi staðfesting á afdrifum Hauks.

Í þessum ríkjum, þar með töldum Norðurlöndunum, ferðast borgarar þeirra á eigin ábyrgð á svæðum sem stjórnvöld vara við að heimsækja og geta ekki búist við að fá aðstoð ef eitthvað kemur upp á. (Forseti hringir.) Það er ekki viðmið sem við höfum að leiðarljósi. Við munum áfram gera allt sem í okkar valdi stendur til að hafa uppi á Hauki. Okkar valdi og getu í þeim efnum eru þó skorður settar. Ég fer nánar yfir það sem hv. þingmaður spurði um í seinna svari mínu.