148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

raforkumarkaðsmál.

[11:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Líkt og fleiri þingmenn hér í dag langar mig að gera ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni, þó ekki sé til að dreifa söknuði eftir þeim fundum hjá þeim þingmanni sem hér stendur, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði að umræðuefni fyrr í þessum fyrirspurnatíma.

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá síðustu helgi segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Í fréttaflutningi í framhaldi af þessari ályktun og yfirlýsingum þingmanns Sjálfstæðisflokksins við norska fjölmiðla mátti skilja sem svo að þessi ályktun þýddi að Sjálfstæðisflokkurinn, og raunar samkvæmt fullyrðingum þingmanns yfirgnæfandi meiri hluti þingsins, styddi ekki innleiðingu á reglugerð um sameiginlega evrópska eftirlitsstofnun með raforkumarkaði þrátt fyrir að það sé nærri ár liðið frá því að þessi reglugerð var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þrátt fyrir að upptakan hafi einmitt verið á forræði þáverandi og núverandi hæstv. utanríkisráðherra og væntanlega með aðkomu þáverandi og núverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra, hvor tveggja ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Upptakan fór reyndar heldur hljótt en kom í samninginn í maí á síðasta ári.

Í ljósi þessa og í ljósi þess að mér er kunnugt um að Norðmenn vörðu töluverðum tíma í aðdraganda þessarar upptöku í að gæta hagsmuna Noregs í málinu og eru í þessum töluðu orðum væntanlega að afgreiða málið í norska Stórþinginu langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða ráðstafanir, ef einhverjar, gerðu ráðherrar til að verja sérstaklega hagsmuni Íslands áður en fyrrnefnd reglugerð var tekin upp í samninginn? Og í ljósi þessara yfirlýsinga: Styður Sjálfstæðisflokkurinn þá ákvörðun sem tekin var (Forseti hringir.) um upptöku fyrrnefndrar gerðar í EES-samninginn af þáverandi og núverandi ráðherrum flokksins?