148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Logi Einarsson bendir á að hann sé búinn að bíða eftir svari frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um eignir og tekjur landsmanna. Hann hefur beðið frá því í desember. Ég er búin að bíða í mánuð eftir svörum við spurningum um úrvinnslu upplýsinga um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, hvernig gangi að vinna úr Panama-skjölunum. Báðar spurningarnar eru mjög mikilvægar og eiga erindi við almenning, þingmenn og fjölmiðlamenn.

Síðan vil ég taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni þegar hann fjallar um grein í Morgunblaðinu þar sem talað er um að þingmenn noti fyrirspurnir til að halda sér sýnilegum. Það er greinilega verið að gera lítið úr þessum þætti starfs okkar. Hæstv. forseti hefur á tveimur fundum þingflokksformanna talað um að þingmenn spyrji of mikið. Ég spyr því, herra forseti: Er þarna verið að verja framkvæmdarvaldið fyrir viðkvæmum og erfiðum spurningum (Forseti hringir.) eins og um eignaskiptingu Íslendinga og hvernig gangi að vinna úr Panama-skjölunum og aflandseignum Íslendinga?