148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Stjórnsýslan og Stjórnarráðið kvartar ekki undan því að fá fyrirspurnir frá þinginu en ég held að tölurnar sýni að við höfum verið með fleiri spurningar og fleiri svör á undanförnum árum en dæmi eru um. Ég held að þingsalurinn hljóti alveg að þola að velt sé upp spurningum um sumar fyrirspurnir eins og til dæmis hvort þörf sé á því að stjórnsýslan svari þinginu um það hversu margar ábendingar eru í skýrslum sem Alþingi hefur látið gera. En síðan eru auðvitað önnur mál sem eru mjög brýn. Það er auðvitað brýnt fyrir þingið að fá svar við fyrirspurn eins og þeirri sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom til ráðherra sveitarstjórnarmála. Og nú hefur fengist svar við spurningunni: Hvert er opinbert nafn sveitarfélagsins þar sem höfuðborg Íslands er staðsett? Svarið er þetta: Reykjavík er höfuðborg Íslands, samanber 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga. Heiti (Forseti hringir.) sveitarfélagsins er Reykjavíkurborg, samanber samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Auðvitað var það brýnt mál, að þingið fengi á hreint hvað höfuðborgin heitir. Auðvitað gat hv. þingmaður ekki flett sjálfur upp í lögum eða samþykktum borgarinnar. Þannig að sannarlega skulum við halda áfram á þessari braut.