148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú er það þannig með þá fyrirspurn sem var vísað í hér áður að henni var skipt í tvennt og hinn hluti hennar snýst um fæðingarstað barna; þar er galli á, það er aðeins misvísandi ef skoðað er heiti sveitarfélaganna eða staðanna sem börnin fæðast á og hvað er síðan skráð opinbert nafn þeirra sveitarfélaga. Það er áhugavert. Ég vil fá að vita svarið við því. Og svarið við seinni helmingi þessarar spurningar er ekki komið. Einhverra hluta vegna var henni skipt í tvennt. Sjáum til hvað kemur út úr því.

En mig langaði til að fara aðeins yfir fyrirspurnir þingmanna sem upplýsingaskrifstofan hefur tekið saman. Á árinu 2017 afgreiddi upplýsingaskrifstofan 145 fyrirspurnir þingmanna. Hún flokkar þetta í fjórar klukkustundir eða minna, fimm til átta klukkustundir eða lengri tíma. Það er ekkert að því að fá svona tölfræði um umfang fyrirspurnanna því að það gefur okkur meiri upplýsingar um hvernig við getum fjármagnað og staðið undir þessu (Forseti hringir.) eftirlitshlutverki. Þannig að: Meiri upplýsingar, því betra.