148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir tækifærið til að ræða þessi mál og fagna áhuga hans á málinu sem hefur komið skýrt fram í þingstörfunum áður.

Mig langar fyrst aðeins að vísa í almenna umræðu um mönnun hjá tollinum. Þar hefur verið viss misskilningur, en þannig er að tollvörðum hefur fjölgað um 20 á síðustu tveimur árum, úr 102 í 122 frá því árið 2016, en málshefjandi kom aðeins inn á það að vissulega hefði fjölgað. Mig langar bara til að nefna þessar tölur.

Það þarf ávallt að skilgreina æskilegan fjölda starfsmanna út frá þeim viðfangsefnum sem fengist er við hverju sinni. Þar skiptir sérhæfing í takt við breyttar þarfir einstaklinga og atvinnulífs miklu máli og af því leiðir að það verður aldrei línulegt samband á milli aukinna umsvifa embættis tollstjóra og fjölda tollvarða.

En vissulega hafa umsvif embættis tollstjóra aukist verulega vegna fleiri ferðamanna og flugfarþega og svo vöruflutninga vegna netverslunar, eins og komið var inn á. Til að mæta þessu er þessi áðurnefnda fjölgun. Svo hefur tollstjóri markvisst unnið að skipulagsbreytingum undanfarna mánuði. Þær breytingar munu leiða til aukinnar sérhæfingar og skilvirkara tolleftirlits í takt við breytta viðskiptahætti. Meginmarkmiðið er ekki sparnaður heldur betri nýting fjármuna og mannafla. Tolleftirlit mun því í auknum mæli byggja á áhættustjórnun og skilgreindum viðurkenndum vinnuferlum. Stefnt er að því að nýtt skipulag taki að fullu gildi um miðjan september á þessu ári.

Hvað varðar viðbúnað á landamærum er deginum ljósara að efla þarf starfsemi eftirlitsstofnana á landamærum, bæði hjá tollstjóra og hjá lögreglu. Þegar hafa borist sameiginlegar tillögur frá embætti tollstjóra, ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Suðurnesjum í þessa veru. Þær tillögur snúa einkum að eftirliti með för manna yfir íslenskt yfirráðasvæði og þær þarf að gaumgæfa vandlega, m.a. með það fyrir augum að tryggja að framkvæmd þeirra verði skilvirk og þær verði sem minnst íþyngjandi fyrir þá sem hingað koma. Þessar tillögur byggja á mikilvægri reynslu annarra þjóða og alþjóðlegum skuldbindingum sömuleiðis, en til að hrinda þeim í framkvæmd þarf að tryggja fjárheimildir. Munu merki þess sjást strax í næstu fjármálaáætlun sem verður kynnt hér innan skamms.

Einnig var komið hér inn á tæknibúnað og samvinnu við lögreglu. Um það er að segja að það er viðvarandi verkefni embættis tollstjóra og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fylgjast með tækniþróun og breyttri aðferðafræði við toll- og landamæraeftirlit. Hér kom málshefjandi inn á þennan bíl sem hefur gagnast mjög vel. Við höfum áður í þinginu verið að ræða um sérstakan búnað fyrir Seyðisfjörð til að geta tekið myndir. Þetta er viðvarandi verkefni. Það þarf ávallt að skýra sömuleiðis hverjar þarfirnar eru hjá tollstjóra. Það er í raun og veru aðeins með þeim hætti sem unnt er að átta sig á raunverulegri gagnsemi upptöku nýrrar tækni. Hér gagnast vel að horfa til helstu nágrannaríkja okkar í því skyni að nýta reynslu þaðan. Engin ástæða er fyrir okkur að finna upp hjólið að nýju.

Samstarf embættis tollstjóra og lögreglu er mjög gott. Því ber að fagna sérstaklega. Á grundvelli þessa góða samstarfs er m.a. til skoðunar að tollstjóri, ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sameinist í framtíðinni í sameiginlegt húsnæði. Ef það tekst mun samstarf þessara mikilvægu stofnana án efa eflast enn frekar. Þar að auki mun slík sameining auka möguleika á sameiginlegum innkaupum og samnýtingu nauðsynlegs tækjabúnaðar til hagræðis fyrir alla aðila máls.

Þá er rétt að nefna að samstarf tollgæslu og lögreglu á Austurlandi hefur verið með ágætum og er mjög mikilvægt vegna þeirra verkefna sem tengjast komum ferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðarhafnar.

Að lokum aðeins um innheimtuna. Eins og sakir standa er árangur við innheimtu skatta og annarra opinberra gjalda ágætur, en hann sveiflast gjarnan í takt við efnahagsástandið á hverjum tíma. Til að viðhalda góðum innheimtuárangri hefur ráðuneytið og embætti tollstjóra lagt ríka áherslu á að einfalda innheimtuna frekar, gera hana skilvirkari og skýrari í augum almennings, auk þess sem gæta þarf að jafnræði milli skattborgaranna.

Áherslur ráðuneytisins í innheimtu almennt má finna í stefnumótun málefnasviða fjármálaáætlunar 2018–2022 þar sem við settum fram skýr metnaðarfull markmið. Að mörgu er að hyggja í þessu efni, m.a. þetta hér, að burðargjöld vegna álagningar innheimtumanns ríkissjóðs eru á ári um 75 milljónir. (Forseti hringir.) Með því að færa innheimtuna yfir á rafræn samskipti myndum við, bara með því einu og sér, spara um 75 milljónir í gluggapóstum frá innheimtumanni ríkissjóðs. Og ef við skoðum burðargjöld ríkisins í heild getum við sparað með rafrænum samskiptum 500 milljónir á ári. Þangað stefnum við.