148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:36]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur kærlega fyrir þessa ágætu og nauðsynlegu umræðu.

Það er fullt af atriðum sem væri áhugavert að fara dýpra í að þessu sinni. Mig langar til að byrja á að taka undir punkt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom með varðandi mikilvægi þess að viðhalda höfnum landsins betur en gert er. Þar er víða pottur brotinn og ég vil sérstaklega undirstrika það vegna þess að þetta er náttúrlega ein af mörgum innkomum í landið og mikilvægt að hafnir séu í góðu lagi, ekki síst öryggisins vegna.

Varðandi mengunina, ég kannaði aðeins málið fyrir umræðuna í dag vegna þess að umræðan er svolítið á þann veg að skemmtiferðaskipin mengi mjög mikið og við því þyrfti að bregðast. Mér heyrist að við öll, bæði ráðherra og þingmenn sem hafa tekið til máls og vitnað hefur verið í skýrslur varðandi ferðamál og fleira, séum sammála um að bæta þurfi regluverkið í kringum skemmtiferðaskipin. Við deilum ekki um það.

Ég rakst á frétt á síðu Umhverfisstofnunar frá 7. september 2017. Mig langar til að lesa aðeins upp úr fréttinni, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Í viðtölum í fjölmiðlum hefur verið gefið í skyn að skemmtiferðaskip hafi heimild í lögum til að brenna svartolíu í kringum landið. Sú er ekki raunin. Hið rétta er að þau mega brenna annaðhvort dísilolíu eða gasolíu og þar sem sú síðarnefnda er mun dýrari má gera ráð fyrir að úti á sjó sé fyrst og fremst verið að brenna dísilolíu. Þegar skemmtiferðaskipin liggja við bryggju gildir hins vegar að þar má einungis brenna gasolíu og nær það raunar til allra skipa. Reyndar mæla reglur svo fyrir að skipum beri að nýta sér rafmagn við þær aðstæður, sé hægt að koma því við. Umhverfisstofnun fær reglulega upplýsingar frá höfnum landsins um eldsneyti skipa sem hér koma til hafnar og ekkert í þeim gögnum bendir til að skipin séu að brenna svartolíu við bryggju, enda er það ólöglegt eins og fyrr segir.“

Síðar í þessari frétt kemur fram að Umhverfisstofnun muni á næstunni hefja eftirlit með eldsneytisnotkun skipa. En ég mun koma aftur í ræðu og fara yfir fleiri atriði.