148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:54]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið afar góð og upplýsandi umræða, en ég hef samt velt fyrir mér hvort slík umræða hefði ekki betur átt heima hjá hæstv. umhverfisráðherra. Það er náttúrlega líka möguleiki á að taka bara aðra sambærilega umræðu og beina henni þá til þess ráðherra því að þar eru mörg mál sem heyra beint undir það ráðuneyti. Við erum að tala um mengun. Og að sjálfsögðu lýtur það einnig að hæstv. ferðamálaráðherra þ.e. alls kyns áætlanir varðandi þolmörk ferðamennsku og annað og ég bíð spennt eftir að sjá þá skýrslu ráðherra sem hún vísaði til í máli sínu áðan.

Þegar ég var að skoða þetta mál rakst ég á frétt hjá RÚV frá 31.07.2017. Þar er viðtal við formann landeigendafélagsins við Látrabjarg, Jón Pétursson. Þar lýsir hann yfir áhyggjum sínum af landtöku skemmtiferðaskipa sem fara með léttabátum í land á friðlýstum svæðum. Þetta tengist reyndar líka tollumræðunni hérna áðan. En í máli Jóns kemur fram að landeigendur á því svæði hafi aldrei fengið neina beiðni um samstarf við eigendur þessara skipa. Jón lýsir því einnig yfir að menn hafi þarna mjög miklar áhyggjur af mengunarslysi á svæðinu vegna þess að allt lífríkið er náttúrlega undir.

Mig langar til að velta því upp við hæstv. umhverfisráðherra, sem er reyndar ekki hér nú, en við tökum það kannski upp síðar um fyrirætlanir um verndaráætlanir á tilteknum svæðum sem ég sé á síðu Umhverfisstofnunar að eru nú í vinnslu, m.a. á Hornströndum og Látrabjargi. Mér skilst að slíkar verndaráætlanir taki líka til komu skemmtiferðaskipa og því sem þeim tengjast. Og einnig er í vinnslu í umhverfisráðuneytinu frumvarp um ný ákvæði í náttúruverndarlögum sem taka til stýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón af reglum um almannarétt. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir að það frumvarp komi fram í haust sem við hefðum öll gott af að fara vandlega yfir og taka umræðu um.