148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við í grunninn að ræða hvort við treystum 16 ára krökkum til að greiða atkvæði í sveitarstjórnarkosningum. Já, ég er hlynntur því, enda einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Mér finnst mesta umræðan hafa farið í það hvort við eigum að seinka þeirri lýðræðislegu þátttöku ungs fólks sem er fullfært um að taka sínar eigin ákvarðanir út af formi, hvort einhver sé ekki tilbúinn eða hvort eitthvað annað vanti upp á. Ég get ekki tekið undir það. En ég er hins vegar algerlega til í að ræða öll þau réttindi sem snerta þennan aldurshóp, til lækkunar. Ég held að allir hafi gott af að fá sína ábyrgð sem fyrst og taka ábyrgð á sjálfum sér. Það er eitthvað sem vantar hér í þessu samfélagi. En ef við ætlum að fara að leggja það fram hér allt saman og taka þá umræðu er það nokkurra ára umræða, við getum bara ekki seinkað þessum lýðræðislegu umbótum vegna þess. Því að um leið og maður kemur með það mál t.d. að lækka áfengiskaupaaldur kæmi náttúrlega strax upp umræðan: Hafið þið ekkert annað að ræða hérna? [Hlátur í þingsal.]