148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:23]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þegar við gerum breytingar á kosningalögum skulum við hafa að minnsta kosti tvennt í huga. Við skulum vera sannfærð um að breytingarnar verði ekki til þess að kosningarnar nái ekki fram að ganga með eðlilegum hætti. Og í öðru lagi skulum við reyna að vera sæmilega samstiga í því sem við erum að gera hér innan húss, það skiptir máli, en það erum við ekki. Ég held að það sé ábyrgðarhluti af okkur hér inni að hlusta ekki á aðvörunarorð Sambands íslenskra sveitarfélaga, líka þær viðvaranir sem dómsmálaráðuneytið hefur gefið. En það eru aðilar hér inni sem telja það engu skipta.

Ég sagði í gær í umræðum: Tökum skrefin, gerum þetta af skynsemi, lækkum kosningaaldurinn í 16 ár í alþingiskosningum, í sveitarstjórnum, í forsetakosningum, og (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslum — og kjörgengið. Ræðum líka um önnur borgaraleg réttindi að minnsta kosti, þannig að samhengi sé í því sem við erum að gera. (Forseti hringir.) Gerum þetta í sameiningu og brettum upp ermar.