148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að koma hér á eftir hæstv. ráðherra menntamála sem telur tímann nægan til stefnu til að uppfræða þau ungmenni sem fengju kosningarétt verði frumvarpið að lögum. Ég var að hugsa, þegar ég hlustaði á þau sem hafa miklar áhyggjur af þessu, hvernig þetta hefur verið í sögunni. 1843 var kosningarréttur 25 ára og eldri, en auðvitað bara karlmenn. 1915 voru konur líka en 25 ára og eldri. 1934 var kosningaaldurinn lækkaður niður í 21 ár, 1968 20 ár og 1984 18 ár. Með hverri einustu breytingu hafa þeir sem hefur ekki hugnast breytingin sagt það sama; þeir sem fengju kosningarrétt eru ekki nógu uppfræddir, hvort sem það voru konur árið 1915 eða þegar þetta var lækkað niður í skrefum á 20. öldinni. Alltaf höfum við áhyggjur af því að nýju kjósendurnir séu ekki nógu uppfræddir, séu ekki eins og við hin sem þegar getum kosið, viti ekki alveg nógu mikið um málið.

Ég fagna orðum hæstv. menntamálaráðherra, yfirmanns menntamála á Íslandi, sem telur þetta ekki bara gerlegt heldur muni hún styðja málið og vil ég að málið nái fram að ganga. (Forseti hringir.) Treystum unga fólkinu okkar.