148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta eru búnar að vera áhugaverðar umræður og ljóst að ýmsu er tjaldað til, til að reyna að tala fyrir málinu hér. Ég hef töluverðar efasemdir um þetta mál. Fyrst og fremst vegna þess að það eru kosningar rétt handan við hornið. Ég þekki reyndar ungan mann sem vill gjarnan kjósa, mjög gjarnan. Hann bíður eiginlega mjög spenntur eftir að kjósa. Þegar hann gengur að kjörborðinu vil ég hins vegar að búið sé að vanda til verka og undirbúa málið mjög vel og hann viti nákvæmlega út á hvað þetta gengur þegar hann fer að kjósa. Við höfum rætt þetta margoft.

En ég kem hingað upp fyrst og fremst til að segja að ég hef efasemdir vegna þess að ég er talsmaður barna, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Og ég læt ekkert stilla mér upp sem slíkur til að gera eitthvað annað en samviskan býður mér. Margt af því sem hv. þm. Inga Sæland bar hér upp í ræðustól ber okkur líka að hlusta á. Og hv. varaforsetar ættu nú að hafa vit á því að vera ekki að gjamma fram í, því að þannig eru nú fundarsköpin sem forsetar starfa væntanlega eftir. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

En, virðulegur forseti. Ég held að menn ættu að huga að því að gera þetta vandlega og varlega. Ég mun vera á gula takkanum hér á eftir þegar þetta mál kemur til afgreiðslu, en samþykkja breytingartillögurnar.